*

laugardagur, 8. maí 2021
Innlent 10. júní 2017 19:45

Vilja ýta undir hverfastemninguna

Ísgerðin Skúbb í Laugardalnum hefur fengið góðar móttökur.

Pétur Gunnarsson
Eva Björk Ægisdóttir

Þeir Karl Viggó Vigfússon, Hjalti Lýðsson og Friðrik Haraldsson stóðu nýverið fyrir opnun nýrrar ísgerð- ar í Laugardalnum, nánar tiltekið að Laugarási 1. Nafn ísgerðarinnar ber nafnið Skúbb. Bæði Viggó og Hjalti eru lærðir konditormeistarar og segir Viggó að það sé þeim mikið keppikefli að bæta íslensku ísmenninguna enn frekar.

Viggó er einnig þekktur fyrir að vera einn af stofnendum Omnom og vildi hann taka að sér nýtt og spennandi verkefni að eigin sögn. „Ég var búinn að vera með nokkur verkefni á prjónunum og hafði skoðað þetta húsnæði tvisvar áður. Þetta endaði þannig að ég tók tvo, þrjá fundi með þeim sem eru með mér í þessu og svo ákvað ég bara að kýla á þetta. Við erum þrír í þessu. Ég, Hjalti og Friðrik. Hjalti ætlaði að opna Laundromat í húsinu en fékk ekki leyfi til þess. Við erum ágætis félagar og hann vildi endilega nýta húsið í þetta. Þegar maður kemur inn í það og horfir yfir Laugardalinn þá hugsar maður: Hér væri tilvalið að vera með ísbúð. Þá fór gamall draumur af stað, að gera ís frá grunni, og af alvöru,“ segir konditormeistarinn Viggó.

Þekkir góðan ís

Þegar Viggó er spurður að því hvers vegna þeir hafi ákveðið að ráðast í ísgerð nefnir hann það að hann og Hjalti séu báðir konditórar og að ísgerðin hafi meðal annars verið kennd í náminu. „Maður hefur verið í kokkalandsliðinu í svo mörg ár að mað- ur veit alveg hvað góður ís er. Hugmyndin er bara sú að lyfta ísmenningunni okkar hér á Íslandi upp á aðeins hærri stall, þó að maður segi ekki að hinir séu ekki að gera þetta nógu vel. Maður hefur bara fengið svo góðan ís þegar maður fer erlendis og hugsar með sér að maður vildi geta borðað svona heima,“ segir Viggó.

Hann tekur fram að aðalsmerki fyrirtækisins sé að fá eins gott hráefni og völ er á. „Við gerum allt sjálfir innanhúss. Ef það er einhver sósa á ísnum gerum við hana hérna. Ef það er verið að búa til sjeik, þá notum við ísinn okkar í það. Í öllu umbúðavali erum við með vistvænar og náttúruvænar umbúðir. Við erum með tré- og maísskeiðar, ekki plast. Við erum með umbúðir sem eru unnar úr sykurreyr. Við reynum að byrja á okkur sjálfum í stað þess að benda á hvað hinir eru að gera,“ segir hann.

Skúbb er einn af mörgum nýjum stöðum sem styðja við hverfamenningu sem er að taka við sér í Reykjavík, þar sem fleiri og fleiri staðir opna fyrir utan miðborgina. „Þetta er náttúrulega þróun sem Reykjavíkurborg hefur hjálpað okkur með, með því að taka öll stæðin úr miðbænum. Þannig að ef þú vilt einhverja kúnna þarftu að fara aðeins úr Miðbænum. Það væri gott að fá borgina með okkur í þetta, til að ná upp svona góðri hverfastemningu,“ segir hann að lokum og vísar til stemningar sem myndast í stórborgum heimsins þar sem er líf og fjör utan miðborgarinnar.

Stikkorð: opnar ísgerð Skúbb