Viljayfirlýsing hefur verið undirrituð um stofnun frumkvöðlaseturs á Djúpavogi. Austurbrú, Afl starfsgreinafélag og Djúpavogshreppur standa að viljayfirlýsingunni, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Markmiðið með frumkvöðlasetrinu er að styðja við frumkvöðlastarfsemi og skapa þannig ný atvinnutækifæri á Djúpavogi og víðar á Austurlandi.  Gert er ráð fyrir að sótt verði um styrk til starfsemi frumkvöðlaseturs til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og fleiri stofnana. Í fréttatilkynningunni kemur einnig fram að leitað verði eftir samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og aðra fagaðila á sviði nýsköpunar.

Jóna Árný Þórðardóttir, starfandi framkvæmdastjóri Austurbrúar, segir í samtali við Viðskiptablaðið, að hún vonist eftir að hægt sé að vinna hratt og vel í að koma frumkvöðlasetrinu á fót. Nú þegar hafi verið lagt til ákveðið grunnfjármagn, og þá hafi frumkvöðlasetrinu verið lagt til húsnæði á Djúpavogi. Jóna Árný segir marga litla sprota vera á Djúpavogi sem nauðsynlegt sé að hlúa að.

Talsvert hefur verið fjallað um Djúpavog upp á síðkastið, en eins og VB.is greindi frá í gær munu færri flytja frá Djúpavogi í haust en ráðgert var í fyrstu, vegna breytinga á starfsemi Vísis Hf. Reikna má með að 15-20 starfsmenn muni engu að síður flytja frá Djúpavogi í Haust. Jóna Árný segir erfitt að meta hversu mörg ný störf frumkvöðlasetur geti haft í för með sér. „Þetta eru bara fyrstu skref og leysir ekki allan vanda eitt og sér, en einhvers staðar verða menn að byrja,“ segir hún um uppbyggingu frumkvöðlaseturs.