Fljótsdalshérað undirritaði í gær viljayfirlýsingu um byggingu fyrirtækisins Greenstone ehf. á allt að 50.000 fermetra gagnaveri í sveitarfélaginu. Greenstone hefur jafnframt ritað undir viljayfirlýsingu við Landsvirkjun varðandi útvegun á a.m.k. 50 MW af orku.

Í frétt Austurgluggans um málið segir að gagnaverið gæti skapað um 20 bein störf og annað eins af óbeinum störfum.

Í viljayfirlýsingu Greenstone og Fljótsdalshéraðs segir að sveitarfélagið muni leggja til lóð undir gagnaver og Greenstone muni sjá um hönnun og byggingu gagnaversins.

Í yfirlýsingunni er lögð áhersla á lagningu nýs ljósleiðara milli Íslands og Bandaríkjanna, þar sem hann muni auka möguleika alþjóðlegra fyrirtækja á að hafa starfsemi sína á Íslandi og nýta þannig orku landsins til að kæla og keyra tæknibúnað gagnavera.

Hugsanlegt er að vatn úr Lagarfljóti verði notað við kælingu í gagnaveri á Fljótsdalshéraði, samkvæmt frétt Austurgluggans.