Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær var greint frá því að sveitarfélagið Ölfus og fyrirtæki Greenstone undirrituðu í gær viljayfirlýsingu um undirbúning byggingar netþjónabús í Þorlákshöfn.

Stefnt er að því að rekstur netþjónabúsins hefjist árið 2010. Sveitarfélagið leggur fyrirtækinu til 50 þúsund fermetra lóð, þar sem áætlað er að reisa um 40 þúsund fermetra byggingu yfir starfsemina.

Í gær var einnig greint frá viljayfirlýsingu milli Greenstone og Landsvirkjunar um kaup á allt að 50 megavöttum af raforku. Enn fremur var í gær tilkynnt um viljayfirlýsingu Greenstone og Farice um gagnaflutninga, en Sveinn Óskar Sigurðsson stjórnarformaður Greenstone, segir nýjan sæstreng til Evrópu vera forsendu þess að hægt sé að reka netþjónabú hér á landi.