Geir Þorsteinsson, formaður Knattspyrnusamband Íslands, vonar að KSÍ og Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari geti sest niður í næstu viku og rætt áframhaldandi starf Lagerbäck fyrir KSÍ. „Það er gagnkvæmur vilji fyrir áframhaldandi samstarfi,“ segir Geir í samtali við Viðskiptablaðið.

„Við höfum rætt saman um það á þessu ári, en við bara ákváðum að ganga til verksins núna að loknum leikjum,“ segir Geir. Lagerbäck hefur verið með íslenska landsliðið yfir eina keppni. Eins og flestir vita hefur íslenska landsliðið aldrei náð betri árangri en núna, þegar liðið komst í umspil fyrir HM í Brasilíu á næsta ári.

Lagerbäck var ráðinn landsliðsþjálfari í október 2011. Hann tók við af Ólafi Jóhannessyni.