Talið er að þýska stjórnin sé við það að skipta um skoðun varðandi meðhöndlun á „eitruðum“ eignum í þýska bankakerfinu. Margt bendir til þess að þýskir bankar séu með um það bil 300 til eitt þúsund milljarða evra í slíkum eignum í bókum sínum.

Í breska blaðinu Guardian kemur fram að bankar út um alla Evrópu geti verið með allt að 4800 milljarða evra í slíkum veðlánum.

Nú þykir ljóst að bankar í Þýskalandi munu skila gríðarlegu tapi vegna ársins 2008. Á það jafnt við um þá banka sem eru í einkaeigu og ríkiseigu. Deutsche Bank, stærsti banki Þýskalands, hefur þegar gefið upp að tapið geti verið nálægt 4 milljörðum evra. Tap BayernLB gæti verið nálægt 5 milljörðum evra.

Samkvæmt frétt Guardian er málið komið á það stig að stjórnir einstakra Evrópuríkja vilja að Seðlabanki Evrópu  taki forystu í málinu og styrki 46 stærstu banka Evrópu. Alvarleiki málsins birtist með skýrum hætti í síðustu viku þegar hinn þjóðnýtti Fortis banki í Belgíu gaf í skyn að hann hefði tapað nálægt 20 milljörðum evra á síðasta ári.