Mikill vilji er innan Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda til að vinna náið með nýjum Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Mögulegt er að slíkt samstarf leiði til sameiningar samtakanna. Þetta kemur fram í ályktun aðalfundar SFÚ, en fundurinn var haldinn í gær.

Í ályktun aðalfundarins er þungum áhyggjum lýst af stöðu fiskmarkaða og framtíð þeirra. Bent er á að framboð hráefnis hafi dregist saman og þeir einyrkjar sem hafi verið með sjálfstæðar útgerðir hafi selt sínar aflaheimildir með þeim afleiðingum að mikil samþjöppun sé að verða í greininni. Ef ekkert verði að gert sé framtíð fiskmarkaða á Íslandi í uppnámi.

Þá er gjaldskrárhækkun hjá Fiskmarkaði Íslands í byrjun árs harðlega gagnrýnd og benda SFÚ á að auknar álögur á fiskkaupendur á mörkuðum falli beint á íslenska neytendur. Í ályktuninni eru jafnframt settar fram hugmyndir um samræmingu uppgjörs við sjómenn.