*

föstudagur, 10. apríl 2020
Innlent 26. október 2019 14:05

Viljum ekki þyngsta regluverkið

Ráðherra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu vill draga úr meinsemd í íslenskum reglum um kröfur á leyfi ofan á leyfi.

Höskuldur Marselíusarson
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er ráðherra iðnaðar-, ferðamála- og nýsköpunar í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Haraldur Guðjónsson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra iðnaðar-, ferðamála- og nýsköpunar, segir aðgerðaáætlun um einföldun regluverks tækifæri til að draga úr reglugerðafargani í íslenskri stjórnsýslu. Hún hefur jafnframt sett fram frumvarp um að færa Samkeppniseftirlitið í fyrra horf frá því fyrir hrun.

Samhliða áætluninni vinnur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að samkeppnismati í samvinnu við OECD og Samkeppniseftirlitið, sem snýst um að greina hvort regluverk kunni að hamla samkeppni eða fela í sér óþarfa reglubyrði. Á Íslandi beinist hún að ferðaþjónustunni og byggingargeiranum en í þeim er reglubyrðin ein sú þyngsta meðal OECD ríkja.

„Auðvitað viljum við ekki vera með þyngsta regluverkið innan OECD, en núna vitum við af því og getum tekist á við það. Ég hlakka til að fá niðurstöðurnar í vor til að geta hrint umbótum í framkvæmd því ég held að það séu ótrúlega mikil tækifæri til þess innan bæði ferðaþjónustunnar og byggingargeirans,“ sagði Þórdís Kolbrún.

„En þetta á einnig við í því almennt hvernig við vinnum reglugerðir og frumvörp og hvernig stjórnkerfið sjálft vinnur. Þess vegna leitum við til atvinnulífsins þar sem fólk og fyrirtæki eru að glíma við þetta regluverk alla daga, og geta þá bent okkur á hvað megi laga til að auka skilvirkni og má segja hámarka súrefnið sem atvinnulífinu stendur til boða.“

Í byrjun vikunnar kynntu þau Kristján Þór Júlíusson, ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála, aðgerðaráætlunina með því að hann beitti einföldu pennastriki til að fækka ellefu hundruð reglugerðum í hans málaflokkum niður í átta. Annar liður í áætluninni er bandormur lagabreytinga sem Þórdís Kolbrún kynnti í samráðsgátt stjórnvalda þar sem felldir verða niður 16 lagabálkar, en elstu þeirra eru lög um eignarnám á vatnsréttindum frá 1921, en einnig lög um sölu á Lagmetisverksmiðju ríkisins sem dæmi. Einnig verða felldar niður kröfur um sérstök verslunar- og iðnaðarleyfi auk sérstakra prófréttinda til að selja notaða bíla.

„OECD hefur bent okkur á þá meinsemd í íslenskum reglum að hér þarf oft leyfi ofan á leyfi. Hefur þá þurft að sækja um ákveðin leyfi sem hafa það eina hlutverk að vera grundvöllur fyrir öðru leyfi. Þetta er fullkomlega óþarft og ekkert nema flækjustig og kostnaður. Regluverkið þarf að vera þannig að almennir borgarar geti skilið það án vandkvæða ef þeir ætla að fara út í eigin atvinnurekstur,“ segir Þórdís Kolbrún.

Krafan um iðnaðarleyfin sem nú eru að falla niður hafa hangið inni í löggjöfinni meðan hægt og bítandi hafi komið í þeirra stað flókið regluverk EES reglna um mengandi iðnað sem er leyfisskyldur hjá Umhverfisstofnun. Á síðari árum hefur það verið eitt skilyrða fyrir leyfum til áfengisframleiðslu, meðan verslunarleyfin hafa verið til viðbótar við hefðbundnar skráningar fyrirtækja sem Þórdís Kolbrún segir leggja alveg nægilegar skyldur á herðar þeirra.

„Síðan eru þau sjónarmið uppi að áfram eigi að vera kröfur um sérstakt próf til að selja bíla, en það myndi þýða aukið eftirlit sýslumanna sem þyrftu þá að setja alvöru fjármuni í það og þá viðbótargjald sem myndi lenda á neytendum. Ég spurði hvernig þessu væri háttað í löndunum í kringum okkar en svona er þetta hvergi nema í Póllandi. Því segi ég að ef almennar kröfur um réttmæta og eðlilega viðskiptahætti eru uppfylltar, þá á það að duga. Við eigum ekki að þurfa að vera með einhverjar kröfur um leyfi umfram það sem önnur lönd telja sig þurfa.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.