Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, segist ekki geta svarað því hversu miklu nýtt umfjöllunargjald muni skila í borgarsjóð á ári. Gjaldið er innheimt vegna erinda til skipulagsfulltrúa.

„Með því að leggja þetta gjald á erum við að vonast til þess að við fáum fyrst og fremst fyrirspurnir sem byggja á raunverulegum áhuga," segir Dagur. „Þessar fyrirspurnir kalla á töluverða sérfræðivinnu sem er dýr og það getur verið tímafrekt að svara þeim.  Þannig að við viljum hafa þröskuld. Þess má geta að við erum að vinna að stóru verkefni, sem gerir þessar fyrirspurnir óþarfar. Við erum að útbúa hverfisskipulag, þar sem allar minniháttar heimildir verða skilgreindar og þar með munum við einfalda til muna alla þessa umsýslu."

Aðfinnslur verktaka vegna aukinnar gjaldtöku endurspeglast í hvassri gagnrýni Samtaka atvinnulífsins. Samtökin telja fátt benda til þess að sveitarfélögin búi við tekjuvanda heldur liggi vandinn fyrst og fremst í of háum rekstrarkostnaði og óábyrgum kjarasamningum.

„Ég er tilbúin að ræða þetta við Samtök atvinnulífsins eða hvern sem er," segir Dagur. "Ég held að það sé frekar heilbrigt að það sé innheimt fyrir raunkostnaði og ekkert umfram það. Það er einmitt það sem við erum að gera."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .