PayAnalytics hefur lokið 450 milljóna fjármöngunarumferð til að standa undir auknu markaðsstarfi erlendis og þróunarstarfi innan félagsins líkt og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í vikunni.

Fyrirtækið þróar hugbúnað sem gerir fyrirtækjum kleift að fylgjast með launabili innan fyrirtækisins eftir kyni og öðrum lýðfræðilegum þáttum á borð við þjóðerni í rauntíma. Markmiðið er að auðvelda fyrirtækjum að að eyða óútskýrðum launamun. Margrét Vilborg Bjarnadóttir, stofnandi og stjórnarformaður PayAnalytics, bendir á að alþjóðlega hafi launamunur innan fyrirtækja fengið aukna athygli sem og þrýstingur um að gripið verði til aðgerða sífellt meiri.

Sjá einnig: Sækja 450 milljónir í jafnréttisútrás

„Út í heimi er jafnlaunalöggjöfin að færast í þá átt að fyrirtæki þurfa í það minnsta að skoða og gefa upp launabil þó löggjöfin gangi yfirleitt ekki jafn langt og á Íslandi. Þannig er löggjöfin að ýta undir þörfina fyrir hugbúnaðinn okkar. Við viljum stökkva á þetta stóra tækifæri,“ segir Margrét.

Sigur í Gullegginu kom þeim á sporið

Hugmyndin að PayAnalytics fæddist út frá rannsóknarverkefni Margrétar og Davids Anderson sem þá voru bæði við störf í bandarískum háskólum. Margrét er í dag dósent við Robert H. Smith viðskiptaháskólann í Maryland og er með doktorspróf í aðgerðagreiningu frá MIT háskólanum í Bandaríkjunum. Margrét og Anderson unnu nýsköpunarkeppnina Gulleggið árið 2016 og í kjölfarið tók fyrirtækið PayAnalytics á sig mynd.

„Þá áttuðum við okkur á að við gætum gert eitthvað af alvöru við hugmyndina,“ segir Margrét. Vöntun hafi verið á slíkri lausn hér á landi til að mynda í kringum innleiðingu jafnlaunavottunar sem lögfest var árið 2017.

„Jafnlaunavottunin gerði kröfu um fyrirtæki þurftu að skoða gögnin sín og mæla launabilið en það voru engin alvöru tól í boði til að gera það.“

Orðspor Íslands hjálpað erlendis

PayAnalytics sótti sér síðast fjármagn í janúar 2020 þegar Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjárfesti í félaginu fyrir 65 milljónir króna. Auk þess hefur félagið fengið alls 70 milljónir króna styrki frá Tækniþróunarsjóði, 50 milljóna króna vaxtarstyrk og  20 milljónir króna markaðsstyrki sem hafi skipt félagið miklu.

„Það hefur hjálpað okkur og skilað því að við erum komin með þessi fyrstu fyrirtæki á erlendum mörkuðum,“ segir Margrét.

„Það hefur einnig skipt máli hvað Ísland stendur framarlega í jafnréttismálum og farið var að hugsa um þessa hluti hér á landi fyrr en annars staðar í Evrópu. Okkur hefur verið mjög vel tekið hvert sem við höfum komið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .