Marínó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka, segir fyrirtækið ætla að umbylta bankaþjónustu á Íslandi í kynningu sinni á fjárfestadegi Kviku banka sem nú stendur yfir.

Kvika hefur verið í vaxtafasa en á þessu ári gengið frá kaupum á TM, Lykli, Aur og Netgíró. Marínó benti á að Kvika væri eini bankinn sem væri að bæta við sig starfsfólki. Félagið sé í einstakri stöðu á fjármálamarkaði.

Marínó kynnti sjö markmið Kviku til næstu þriggja ára en þar á meðal er að hækka arðsemismarkmiðið samstæðunnar úr 15% í 20%. Bankann ætla að bæta við sig 50 þúsund viðskiptavinum sem nota þrjár eða fleiri fjártæknilausnir hjá samstæðu Kviku en undir það falla meðal annars lausnir TM, netbankinn Auður, Aur og Netgíró.

Fái sömu kjör og stóru bankarnir

Kvika ætlar einnig að auka markaðshlutdeild sína á tryggingamarkaði og í eignastýringu. Þá er stefnt að því að Kvika nái sambærilegum fjármögnunarkjörum og hinir bankarnir. Marínó benti á að Kvika sé bæði með arðsamari rekstur og betri tekjudreifingu en stóru viðskiptabankarnir. Kvika tilkynnti einnig í dag að félagið hafi ráðið Swedbank AB sem umsjónaraðila á útgáfu skuldabréfa bankans í Evrópu og mun funda með evrópskum fjárfestum í desember. Útgáfurammi skuldabréfa Kviku sem skráð verða í  kauphöll Euronext í Dublin á Írlandi er allt að 500 milljónir evra eða um 74 milljarðar króna.

20% hagnaðar komi frá Bretlandi

Auk þess er stefnt á að 20% af hagnaði samstæðunnar komi frá starfsemi Kviku á Bretlandi gangi kaupin á meirihluta í breska lánafélaginu Ortus Secured Finance eftir . Starfsemin á Bretlandi á að verða fimmta stoðin í rekstri Kviku en við kaupin aukast eignir samstæðunnar um 10%.

Einkaaðilar finni lausnir í loftslagsmálum

Kvika stefnir jafnframt á að ná mælanlegum árangri í að draga úr kolefnisspori Íslands og í baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Marínó sagði þau markmið um kolefnishlutleysi sem íslensk stjórnvöld hafi boðað á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Skotlandi vera ígildi efnahagslegs harakíri fyrir Ísland. Einkaaðilar þyrftu að finna lausnir í loftslagsmálum og í því væru fólgin ýmis tækifæri. Kolefnisbinding gæti til dæmis orðið útflutningsgrein hér á landi.