Jean-Luc Melenchon forsetaframbjóðandi í Frakklandi, sem sækir stuðning til franska Kommúnistaflokksins, segir að hann vilji leggja 100% tekjuskatt á hina ríku — eða þá sem hafa yfir 400 þúsund evrur í tekjur. CNN Money fjallar um málið.

Eins og sakir standa þá er efsta skattþrepið í Frakklandi 45%. Ef að skattar þeirra sem hefðu yfir 400 þúsund evrur í laun yrði hækkað upp í 100%, myndu allar tekjur þeirra renna beint til ríkisins.

Francois Hollande, núverandi forseti Frakklands, reyndi að hækka skatta hinna ríku upp í 75% árið 2012 en þeirri hugmynd var hafnað af frönskum dómstólum. Á seinustu tveimur árum hafa 22 þúsund milljónamæringar yfirgefið Frakkland vegna hárrar skattbyrði. Í mars sagði Melenchon að það ættu að vera takmark á auðsöfnun. „Ef það eru einhverjir sem vilja yfirgefa landið vegna þessa segi ég bara: bless!“

Bætir hratt við sig

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag eru fjórir frambjóðendur nokkuð jafnir í aðdraganda forsetakosninganna í Frakklandi, samkvæmt nýrri könnun.

Jean-Luc Melenchon bætt talsverðu við sig á síðustu misserum og er fylgi hans nú 18 prósent. Nálega þriðjungur kjósenda er enn óákveðinn og því virðist allt hnífjafnt í forsetakosningunum.