Fjárhaldsstjórn Álftaness telur að það þurfi að leysa sveitarfélagið alfarið undan öllum leiguskuldbindingum þess sem eru utan efnahags. Álftanes skuldar 4,1 milljarð króna utan efnahags og er þar um að ræða leiguskuldbindingar við Eignarhaldsfélagið Fasteign. Upphæðin nemur um 293% af tekjum sveitarfélagsins.

Álftanes hefur ekki greitt leigu í langan tíma vegna þeirra eigna sem sveitarfélagið leigir af Fasteign. Þetta kemur fram í nýrri úttekt fjárhaldsstjórnarinnar á rekstri Álftaness. Hún telur ennfremur að sveitarstjórn Álftaness hafi ekki farið að lögum við ráðstöfun fjár sem sveitarfélagið fékk vegna sölu eigna á síðasta kjörtímabili.