Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis gerði vandamálin í efnahagslífinu sagði í ræðu sinni við setningu Alþingis í dag að

„Vindurinn blés að vísu aðeins um okkur þegar við gengum milli Dómkirkjunnar og Alþingishússins og það er ef til vill táknrænt fyrir þann mótbyr sem við eigum nú við að glíma í efnahagslífi okkar,“ sagði Sturla.

„Það er von mín að okkur beri gæfa til að taka með farsælum hætti á þeim stóru verkefnum sem bíða okkar á næstu vikum og mánuðum.“

Þá fjallaði Sturla um breytingar á þingsstörfum í ræðu sinni og sagði að á undanförnum árum hefðu margar endurbætur verið gerðar á lagasetningarferlinu auk þess sem starfsaðstaða þingmanna hefði verið bætt að mörgu leyti.

Þá sagði hann að tímabært að fram færi endurskoðun á þeim lagareglum sem gilda um þingeftirlitið.

„Ég tel að slík endurskoðun á lagareglum er gilda um eftirlitshlutverk Alþingis sé í takt við þær veigamiklu breytingar sem orðið hafa á ýmsu regluverki sem varðar stjórnsýslu ríkisins. Í því sambandi má nefna þau framfaraspor sem stigin voru með því að færa Ríkisendurskoðun undir Alþingi og með stofnun embættis umboðsmanns Alþingis svo og með stjórnsýslulögum og upplýsingalögum,“ sagði Sturla í ræðu sinni.

„Þegar hugað er að eftirlitshlutverki Alþingis tel ég að efla þurfi það eftirlit sem fram fer á vegum fastanefnda þingsins. Þáttur í því er að skapa möguleika á að nefndir geti haldið einstaka nefndarfundi fyrir opnum tjöldum.“

Þá minni Sturla á að samkvæmt reglum getur fastanefnd óskað eftir því að ráðherrar, forstöðumenn sjálfstæðra ríkisstofnana og fulltrúar hagsmunaaðila komi á opna fundi og veiti nefndinni upplýsingar.

„Væntanlega yrðu slíkir fundir einkum bundnir við mál sem vega þungt í þjóðfélagsumræðunni hverju sinni og áfram verður meginreglan sú að vinnufundir nefndanna verði lokaðir,“ sagði Sturla.

„Ég tel að með opnum nefndafundum sé stigið mjög þýðingarmikið skref sem eigi eftir að breyta ásýnd þingsins sem eftirlitsaðila og styrkja störf þess. Með opnum fundum verður eftirlit Alþingis sýnilegra og skapar betri möguleika á því að gefa almenningi kost á fylgjast með þeim viðfangsefnum sem eru til umfjöllunar á þinginu. Um leið er skapaður opinn vettvangur fyrir skoðanaskipti milli þingmanna og aðila  í þjóðfélaginu sem aldrei væri mögulegt að fram færu í þingsal þar sem þingmenn einir hafa aðgang.“

Vill að þingmannamál fari í gegn

Sturla minnti í ræðu sinni á að löngum hefði verið gagnrýnt að nefndir þingsins liggi á þingmannamálum og að þær afgreiði þau ekki frá sér nema í undantekningatilvikum. Hann sagði að í reynd hefðu ega fá þingmannamál verið afgreidd á hverju þingi og hefur svo verið um langt skeið. Hann sagði þetta yfirleitt hafa bitnað jafnt á málum stjórnarþingmanna sem og þingmanna stjórnarandstöðu.

„Ég er þeirrar skoðunar að það sé orðið tímabært að gera hér breytingu á. Eðlilegt er að nefndir starfi þannig að öll mál sem til þeirra er vísað fái afgreiðslu úr nefnd, hvort sem meirihlutastuðningur er við það að samþykkja mál eða ekki í nefndinni,“ sagði Sturla.

„Það er hlutverk Alþingis sjálfs á þingfundi að taka afstöðu til endanlegrar afgreiðslu þessara mála. Þingið á að vera ófeimið við fella slík mál sem meiri hluti þingmanna styður ekki eða þurfa betri tíma, og kannski hentugri tíma. Og auðvitað á þingið ekki síður að veita þeim þingmannamálum brautargengi sem meiri hluti er talinn vera fyrir. Það mætti hugsa sér einhverja vinnureglu sem fælist í því að þingmannamál sem lögð eru fram fái afgreiðslu í nefnd á kjörtímabilinu.“

Hann sagði breytingu sem þessi myndi leiða til þess að álag á þingfundum myndi eitthvað aukast en á móti mætti hugsanlega breyta þingsköpum til þess að gera mögulegt að hægt sé knýja fram afstöðu þingsins án þess að afgreiðsla þingmannamála taki alltof mikinn umræðutíma.

„Um þessa breytingu vil ég ræða við forustumenn þingflokkanna og ég hygg að við ættum að ná vel saman um lagfæringu á þessu sviði til að treysta stöðu þingsins sem meginvettvangs pólitískrar umræðu í landinu og skapa jafnframt festu við afgreiðslu mála sem einstakir þingmenn flytja,“ sagði Sturla.

Í upphafi ræðu sinnar sagði Sturla að hugur þingmanna dveldi hjá utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og hann hefði þegar sent henni kveðjur.