Atticus Capital, bandarískur vogunarsjóður sem er talinn eiga um eitt prósent hlut í Barclays, hefur hvatt stjórn breska bankans til að draga yfirtökutilboð sitt í ABN Amro til baka. Ef stjórnin verður ekki við þeirri kröfu mun sjóðurinn greiða atkvæði gegn kaupunum og leggja sig fram um að sannfæra aðra hlutahafa um að gera slíkt hið sama.

Í bréfi sem Financial Times komst yfir og birti um helgina, segir stjórnarformaður Atticus, Timothy Barakett, og varaformaður, David Slager, að sjóðurinn telji að tilboð Barclays í ABN sé langt umfram það sem geti talist eðlilegt. Frekari tilraunir Barclays í þá veru að reyna að yfirtaka ABN - með því að hækka tilboð sitt - myndu aðeins "skaða trúverðugleika stjórnenda Barclays og reita hluthafa bankans til reiði", segir í bréfinu.

Ókyrrð á meðal hluthafa Barclays
Í svari Barclays við bréfi bandaríska vogunarsjóðsins er hins vegar á það bent að skoðanir Atticus endurspegli ekki viðhorf meirihluta hluthafa, sem séu flestir hverjir hlynntir þeirri stefnu sem stjórnendur bankans hafi markað. Markaðurinn brást aftur á móti vel við þessum fregnum af mótmælum Atticus. Gengi bréfa Barclays hækkaði um þrjú prósent sökum þess að talið var að bankanum myndi núna reynast erfiðara en ella að sannfæra hluthafa um nauðsyn þess að leggja fram nýtt og hærra yfirtökutilboð í ABN Amro. Samkvæmt heimildarmönnum bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal hafa stjórnendur Atticus tjáð Barclays þá skoðun sína að hlutabréf breska bankans séu vanmetin um þessar mundir, en ef Barclays myndi hins vegar falla frá tilboðinu í ABN væri sennilegt að það myndi gera það að verkum að bréf í félaginu hækkuðu.

Nokkrir stórir hluthafar í Barclays á Bretlandi hafa að undanförnu varað stjórn bankans við því að hækka tilboð sitt í hollenska bankann. Í frétt Financial Times kemur fram að hluthafar sem taldir eru eiga yfir tíu prósenta hlut í Barclays hafi sagt stjórnendum bankans að enda þótt þeir séu ekki mótfallnir því yfirtökutilboði sem lagt var fram 23. apríl síðastliðinn, þá muni þeira engu að síður snúast gegn öllum tilraunum í þá veru að hækka það tilboð.

Sú vaxandi ókyrrð sem er á meðal hluthafa Barclays endurspeglar þær efasemdir sem ríkja um getu bankans til að standa við yfirtökusamninginn, vegna þess að hann mun líkast til þurfa að hækka tilboð sitt til að sigra RBS-hópinn - Royal Bank of Scotland, Fortis og Santander - í baráttu þeirra um að ná yfirráðum í ABN Amro. Tilboð RBS-hópsins var um ellefu prósentum hærra heldur en tilboð Barclays í ABN sem hljóðaði upp á 64 milljarða evra og verður eingöngu greitt með nýjum bréfum í bankanum, á meðan tilboð keppinautarins er að 79% hluta í peningum.

Fundað með hundrað hluthöfum
En RBS-hópurinn glímir hins vegar einnig við sín vandamál. Til þess að tilboð bankahópsins geti orðið að veruleika verður að nást samkomulag við Bank of America (BofA) um framtíð bandaríska smásölubankans LaSalle, sem ABN hafði samþykkt að selja til BofA fyrir 21 milljarð Bandaríkjadala sem hluta af samkomulaginu við Barclays. Í síðustu viku slitu RBS og BofA viðræðum sem staðið höfðu á milli bankanna sökum þess að ekki náðist samkomulag um verð sem báðir aðilar væru reiðubúnir að fallast á. Það er núna undir hollenskum dómstól komið hvort hluthafar ABN Amro fái tækifæri til að greiða atkvæði um söluna á LaSalle til BofA og má vænta úrskurðar þess efnis í næsta mánuði.

Í frétt Reuters fréttastofunnar er greint frá því að undanfarnar vikur hafi stjórnendur Barclays verið að funda með hátt í hundrað hluthöfum og reynt að sannfæra þá um kosti þess að yfirtaka ABN. Á fundi sem yfirmenn Barclays áttu með stjórnendum Atticus tókst þeim hins vegar ekki að fá sjóðinn til að skipta um skoðun. Financial Times hefur eftir Slager, varaformanni stjórnar Atticus, að sjóðurinn vilji fremur að Barclays fjárfesti í BarCap og BGI, en að öðrum kosti eigi bankinn að greiða hluthöfum sínum út meiri arð.