Mörður Árnason varaþingmaður hefur lagt þá tillögu fyrir landsfund Samfylkingarinnar í mánaðarlok að framkvæmdastjóri flokksins verði kosinn á landsfundi.

Þetta kemur fram á vef Samfylkingarinnar en Mörður telur með þessu að framkvæmdastjórinn geti betur orðið mótvægi við þá sem veljast til annarra forystustarfa í flokknum í stað þess að vera einskonar flokkslegur aðstoðarmaður formannsins eins og verið hafi.

Í greinargerð með tillögunni segir að með þessari skipan mála séu meiri líkur á öflugu flokksstarfi og víðtækum umræðum sem skort hafi á síðan Samfylkingin hóf þátttöku í ríkisstjórn vorið 2007.

Þá kemur fram að auk tillögunnar um að kjósa framkvæmdastjóra er gert ráð fyrir nokkrum öðrum breytingum á skipan flokksforystu, meðal annars að hætt verði að kjósa sérstakan ritara og gjaldkera fyrir flokkinn á landsfundi heldur verði þeir valdir í framkvæmdastjórn flokksins, og einnig formaður þeirrar stjórnar sem nú þarf að kjósa á landsfundi.

„Óþekkt er í sögu íslenskra stjórnmálahreyfinga að framkvæmdastjóri sé kjörinn á flokksþingi, heldur er vaninn að flokksforysta eða formaður ráði sér slíkan starfsmann,“ segir í tillögum Marðar.