Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, telur rétt að fyrirtæki hérlendis tilnefni sérstakan fulltrúa neytenda innanhúss í stað þess að eftirlit með réttindum neytenda sé einvörðungu lögð á herðar hins opinbera. Ekki sé eðlilegt að skattgreiðendur beri einir kostnað af því að reglur löggjafans um réttindi neytenda séu virtar. Gísli telur að með slíkri skipan mála séu fyrirtæki að axla ábyrgð sína gagnvart neytendum.

„Slíkur fulltrúi gæti ekki aðeins tryggt að réttur neytenda yrði virtur heldur stuðlað að því að umtalsáhætta fyrirtækis minnkaði, og hyrfi jafnvel, með því að tekið væri á óhjákvæmilegum vandræðum á tilteknum stað með aðgengilegum hætti frekar en að leiðir - og jafnvel reiðir - neytendur þyrftu að leita til fjölmiðla, talsmanns neytenda, Neytendasamtakanna, viðmælenda í heita pottinum o.s.frv. til þess að lýsa gremju sinni, áheyrendum til ama - og fyrirtækjunum til skaða,” segir Gísli.

Samkomulag til að fyrirbyggja grun

Hann kveðst telja að slíkur fulltrúi neytenda innan hvers fyrirtækis gæti verið einfalt einkaframtak fyrirtækja í því skyni að tryggja hagsmuni sína og neytenda. Hin leiðin væri að gera formlegt samkomulag við talsmann neytenda um hlutverk og stöðu slíks fulltrúa. Væri þetta gert „til þess að fyrirbyggja að grunur vaknaði um að þetta væri einungis til þess að sýnast en ekki raunveruleg ráðstöfun til þess að standa á rétti neytenda,” segir hann.