Magnús Erlingsson lögfræðingur segir að allt of lítið gagnsæi sé í viðræðum um uppgjör Icesave og svo virðist sem það hafi verið einhver leyndarhjúpur sem hefur umvafið það mál allt saman.

„Ég tel að hagsmunir þjóðarinnar kalli á skýrari stefnumörkun á þeim viðræðum ef þeim hefur ekki verið slitið," sagði Magnús í samtali við vb.is.

Magnús segir að það séu mörg lagaleg álitamál sem styðja við að kröfur Íslands, sérílagi gagnvart Bretum þar sem hann telur að þeir hafi farið offari í aðgerðum sínum og gera ennþá.

„Mín skoðun er sú að ný stjórn eigi að leggja málið aftur fyrir Alþingi og afla sér nýs umboðs sem skilgreinir nánar samningsmarkmið ríkisins. Í þessu máli er verið að semja  um svo viðamikla hagsmuni að opið umboð til samninga sem litlar fréttir berast af án lýðræðislegrar umræðu þingsins um málið tel ég að skapi óþarfa tortryggni út í þjóðfélaginu."

Magnús sagðist einnig telja að það kunni einnig að vera á mörkum þess að vera stjórnskipulega rétt verklag þegar um svo viðamikla hagsmuni er að tefla.

„Alþingi á að hafa nægar upplýsingar nú til þess að geta áttað sig á þjóðréttarlegri stöðu landsins í málinu og mótað sín samningsmarkmið samkvæmt þeirri stöðu. Verkefni nýrrar stjórnar eru mörg en það voru miklar efasemdir hjá hluta af núverandi stjórnarliðum  um það að ekki væri rétt staðið að málum af hálfu fyrri ríkisstjórnar svo að það eru tækifæri nú  til þess að láta verkin tala og viðhafa gagnsæi í málinu."