Andrew Large, fyrrverandi aðstoðarbankastjóri Englandsbanka, leggur til að allt að tveir nýir aðstoðarbankastjórar verði ráðnir til viðbótar í Seðlabanka Íslands og að ný Þjóðhagsvarúðarstofnun verði stofnuð. Kemur þetta fram í skýrslu sem Large vann fyrir Seðlabankann.

Leggur Large til að Þjóðhagsvarúðarstofnun ætti að samanstanda annars vegar af stefnumarkandi fjármálastöðugleikaráði háttsettra embættismanna og hins vegar virkum þjóðhagsvarúðarhópi. Í ráðinu ættu að sitja að minnsta kosti fjármálaráðherra sem formaður þess, Seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Seðlabankastjóri ætti svo að vera formaður Þjóðhagsvarúðarhópsins. Ráðið eigi að hafa frumkvæði að því að virkja viðbrögð við hættuástandi og taka allsherjarábyrgð skapist hættuástand. Hópurinn eigi svo að móta tillögur og taka ákvarðanir.

Seðlabanki Íslands ætti einnig að endurskoða valdsvið sitt í tengslum við ákvæði um þrautalánveitanda með það í huga að ná fram öllum nauðsynlegum breytingum á lögum. Seðlabanki Íslands ætti að hafa úrval tækja til ráðstöfunar sem falla að þeim margvíslegu tækjum sem nú eru í notkun í mismunandi ríkjum.

Hið nýja fjármála- og efnahagsráðuneyti ætti að bera meginábyrgð á öllum þáttum fjármálastöðguleika, þar á meðal þeim sem eru í verkahring Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Meðal þeirra væru þjóðhags- og eindarvarúðarstefna, viðbrögð við áföllum og þeim tengdar úrlausnir. Fjármálaeftirlitið ætti að annast eftirlit með Íbúðalánasjóði sem félli undir heildarábyrgð atvinnuvega- og nýsköpunaráðuneytisins.