Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, ritar opið bréf til forseta Íslands í Fréttablaðinu , þar sem að hann hvetur hann til þess að leita til Alþýðufylkingarinnar og veita henni umboð til myndun utanþingsstjórnar.

„Núverandi stjórnarkreppa varpar ljósi á djúpstæða kreppu í samfélaginu. Þó að mikið sé talað um efnahagslegt góðæri, nær það aðeins til lítils hluta þjóðarinnar. Auk þess blasir við að þegar næsta efnahagsbóla springur verður það að óbreyttu enn á ný hinn fátæki skari sem verður látinn bera byrðarnar,“ skrifar Þorvaldur meðal annars.

Hann telur jafnframt nauðsynlegt að vinda ofan af markaðsvæðingu með auknu vægi félagslegra lausna til að koma á jafnvægi og meiri jöfnuði í samfélaginu.

Fjögurra ára áætlun Alþýðufylkingarinnar byggist að sögn Þorvalds á áformum um félagsvæðingu innviða samfélagsins, þar sem að aðalatriði sé að fjármálakerfið verði rekið félagslega.

Alþýðufylkingin hlaut 118 atkvæði þegar flokkurinn bauð sig fram til Alþingis árið 2013 eða 0,1 prósent atkvæða. Flokkurinn bætti við sig fylgi árið 2016, þegar hann hlaut 575 atkvæði og var með 0,3 prósent fylgi, sem er 387,2% fylgisaukning milli kosninga.