*

mánudagur, 15. júlí 2019
Innlent 4. janúar 2018 13:00

Vill að borgarstjóri verði ráðinn

Fyrrverandi formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna veltir upp lausn við niðursveiflu flokksins í borginni síðustu í 24 ár.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Davíð Þorláksson, sem í dag starfar sem forstöðumaður á samkeppnishæfnissviði SA en var löngum aðallögfræðingur Icelandair ásamt störfum sínum fyrir Sjálfstæðisflokkinn þar sem hann var meðal annars formaður SUS, fer yfir stöðu flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur í pistli í Viðskiptablaðinu.

Segir hann að vandi flokksins í borginni sé ærinn enda hafi hefðbundin prófkjör ekki skilað flokknum góðri niðurstöðu lengi. Veltir hann því upp að flokkurinn þurfi að horfast í augu við að nú þegar nokkrir dagar eru í að framboðsfrestur renni út að þeir fái ekki gott borgarstjórnarefni í komandi leiðtogaprófkjöri.

Ætti hann því heldur að lofa að auglýsa eftir borgarstjóraefni ef hann fái til þess meirihluta.

„Framboð í leiðtogaprófkjörinu er engin trygging fyrir öruggu sæti og 1. sætið er engin trygging fyrir borgarstjórastólnum,“ segir Davíð í pistli sínum og bendir á að ólíkt öðrum sveitarstjórnum sé seta í borgarstjórn fullt starf sem greiði 630 þúsund á mánuði svo segja þurfi upp öðrum störfum á meðan.

„Það þarf því engan að undra að það virðist ekki vera eftirspurn eftir þeim sem eru í framboði og ekki framboð af þeim sem eftirspurn er eftir.

Það er því spurning hvort Sjálfstæðisflokkurinn verði ekki að horfast í augu við þessa staðreynd og taka þá ákvörðun að oddviti verði ekki borgarstjóraefni. Þess í stað lofi flokkurinn að auglýst verði eftir borgarstjóra ef flokkurinn verði í meirihluta. Sú aðferð væri betur til þess fallin að ráða hæfan borgarstjóra.“

Davíð segir að grasrót flokksins í borginni hafi lengi verið sundurtætt af innanflokksátökum og kreppa hafi ríkt innan flokksins í 24 ár. „Í kosningunum 1962–1990 var meðalfylgi flokksins 51%. Á því tímabili var hann alltaf nema einu sinni með hreinan meirihluta en hefur aldrei verið síðan,“ segir Davíð. 

„Í kosningunum 1994–2006 var meðalfylgið 44% en eftir hrun, í kosningunum 2010 og 2014, var meðalfylgið 30%.“

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is