Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir óásættanlegt að ríkisstjórnin ætli ekkert að gera til að auka tekjur af komu erlendra ferðamanna. Borgarstjórn ætlar á þriðjudag að skora á Stjórnstöð ferðamanna að tryggja án tafar að sveitarfélög fái hlutdeild í skatttekum af ferðamönnum.

Í vikupósti sínum segir Dagur að hægt væri að hækka gistináttagjaldið og að sveitarfélög fái hlutdeild í því gjaldi. Víða um heim renni gistináttagjald til sveitarfélaga. Sveitarfélög landsins þurfi að standa undir margvíslegum útgjöldum vegna komu ferðamanna, einkum vegna uppbyggingar innviða.

Dagur segist margoft hafa rætt þetta við ráðherra á undanförnum árum. „Það er forgangsmál að breyta þessu og mikilvæg prófraun á hvort tilvist stjórnstöðvarinnar er yfir höfuð til einhvers,“ segir í vikupóstinum.

Í hádegisfréttum RÚV sagði Dagur að það sem leiði til þess að þolinmæðin þrjóti sé yfirlýsing Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, ráðherra ferðamála, á ferðamannadeginum að gjaldtaka af ferðaþjónustu væri ekki forgangsmál vegna þess að ríkissjóður fái nú þegar svo miklar tekjur af ferðamönnum. Einnig sé frestur ráðherra til að leggja fram ný frumvörp á yfirstandandi þingi að renna út. „Okkur finnst þetta óásættanlegt,“ segir Dagur.