Dagur B. Eggertsson borgarstjóri vill að Reykjavíkurborg taki alfarið yfir rekstur heilsugæslu í borginni og samtvinni hana félagsþjónustu. Viðraði hann þessa skoðun sína á Facebook síðu sinni í gær. Hugmyndina segir hann byggja á fyrirkomulagi Akureyrarbæjar í heilbrigðismálum sem rekur heilsugæslu bæjarins samfara annarri þjónustu.

Fyrirhugað er að sameina heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi en þá mun ríkið taka yfir rekstur á heilsugæslu Akureyrarbæjar. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði í samtali við Fréttablaðið að engin ástæða sé til þess að ætla að þjónusta muni dragast saman í kjölfarið en Dagur lýsir yfir áhyggjum sínum yfir því að ábyrgðin færist til.