Ásgeir Jónsson hagfræðingur vill gefa einkaaðilum tækifæri á að kaupa sér hlut í Landsvirkjun. Tryggja verði samt að ríkið eigi meirihluta og haldi þannig utan um auðlindir þjóðarinnar. Þetta mundi létta ábyrgð af ríkinu og bæta lánshæfismat þess en þetta kemur fram í viðtali við Ásgeir í Fréttablaðinu í dag.

Ásgeir Jónsson er annar höfunda skýrslu um arðsemi orkusölu til stóriðju, sem kynnt var ríkisstjórn í síðustu viku. Líkt og hefur verið greint frá kemur þar fram að arðsemi af orkusölu til stóriðju er minni en til annarra atvinnugreina og lægri en til sambærilegrar starfsemi í öðrum löndum

Skýrsluhöfundar, Ásgeir og Sigurður Jóhannesson, leggja til að að unnið verði að því að breyta Landsvirkjun og öðrum fyrirtækjum í opinberri eigu í almenningshlutafélög og leggja áherslu á verkefnafjármögnun þegar kemur að nýjum framkvæmdum.

Ásgeir segir skýrsluna umræðugrundvöll. Nauðsynlegt sé að ræða af yfirvegun um hvað henti best varðandi jafn mikilvægt fyrirtæki og Landsvirkjun. Ekki þýði að fara í skotgrafirnar og hrópa hátt um að nú eigi bara að einkavæða. Hann vill horfa til reynslu Norðmanna. „Ég vil skoða hvernig eignarhaldi Statoil er háttað. Þar er hugsunin sú að ríkið haldi utan um auðlindirnar með því að eiga meirihlutann í fyrirtækinu, en á sama tíma er reynt hafa eins mikið aðhald í starfsemi félagsins og hægt er, en á sama tíma geti fyrirtækið fjármagnað sig á markaði sjálfstætt og sé ekki með ríkisábyrgð og hafi ýmislegt aðhald að markaðnum. Það næst að einhverju leyti með hlutafélagavæðingu,“ segir Ásgeir í viðtali við Fréttablaðið.