Fjölmiðlamógúllinn Rupert Murdoch segist vera þeirrar skoðunnar að Facebook ætti að greiða útgefendum fyrir að deila efni sínu á samfélagsmiðlinum ef fyrirtækið ætli sér raunverulega að styðja við trúverðugan fréttaflutning.

Vaxandi pressa hefur verið á Facebook að koma í veg fyrir að samfélagsmiðillinn sé notaður til að dreifa villandi upplýsingum en fyrirtækið sagði í síðustu viku að það myndi gefa þeim miðlum sem það teldi trúverðuga aukið vægi og hærri forgang umfram aðra miðla. Murdoch sagði þó að slíkar aðgerðir væru ófullnægjandi og að samfélagsmiðlar ættu heldur að greiða útgefendum fyrir efnið á sama hátt og sjónvarpsstöðvar greiða fyrir efnið sem þær sýna.

„Útgefendur eru augljóslega að auka virði og trúverðugleika Facebook með fréttum sínum og efni en eru ekki að fá nægjanlega umbun fyrir þá þjónustu,“ sagði Murdoch. „Greiðslur fyrir afnotarétt af efninu myndu hafa minni háttar áhrif á hagnað Facebook, en mikil áhrif á stöðu útgefenda og blaðamanna.“