„Maður þarf alltaf að hafa fyrir því að vinna svona mót þótt við höfum þannig séð rúllað því upp og ekki fengið á okkur mark,“ segir Rósa María Sigbjörnsdóttir, fyrirliði kvennaliðs Íslandsbanka sem fór með sigur af hólmi þriðja árið í röð á Fótboltamóti fjármálafyrirtækja sem fram fór á Akureyri um helgina.

Í öðru sæti var kvennalið Landsbankans og lið Sjóvár í þriðja sæti.

Þetta er þriðja árið í röð sem kvennalið keppir á mótinu og voru þau fjögur sem kepptu í ár. Auk Íslandsbanka sendu Landsbankinn, Motus og Sjóvá kvennalið á mótið. Fjórir leikir voru spilaðir í einum riðli og kepptu tvö efstu liðin um úrslitasætið. Rósa hefur ásamt öðrum liðsmanni tekið þátt í mótinu frá upphafi. Hún segir mikilvægt að fjölga kvennaliðunum á næstu árum. „Þetta er mjög skemmtilegt mót. Ég hvet alla til að taka þátt í þessu næst svo kvennaliðin verði fleiri.“

En hvernig fór lið Rósu að þessu?

„Galdurinn er ein æfing fyrir mót. Það hefur verið uppskriftin. Þetta er helmingurinn stelpur sem hafa æft fótbolta. Hinn helmingurinn hefur ekki gert það og blandan skemmtileg. Ef allir eru tilbúnir til að berjast þá er alltaf not fyrir alla,“ segir Rósa en bætir við að það sé gaman að halda heiðri bankans uppi því ekki hafi strákarnir gert það undanfarin þrjú ár.

Fótboltamót fjármálafyrirtækja
Fótboltamót fjármálafyrirtækja

Sigurlið kvennaliðs Íslandsbanka. Fyrirliðinn Rósa er fyrir miðju á myndinni.