„Gunnar Andersen var forstjóri yfir gríðarlega valdamikilli stofnun á mjög krítískum tíma. Við viljum veita fólki aðgang að svona mönnum svo þeir fái þær spurningar sem fólk vill spyrja um,“ segir Jón Ingi Gíslason, formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur. Gunnar Þ. Andersen, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, verður gestur á morgunfundi félagsins á laugardag og mun hann flytja erindi um aðdraganda efnahagshrunsins, orsakir þess, úrvinnslu og framtíðarsýn á morgunfundi Framsóknar í Reykjavík á laugardag undir yfirskriftinni: Hvað var rétt gert og hvað rangt?

Gunnar var ráðinn forstjóri FME í apríl árið 2009. Stjórn FME rak hann á þeim forsendum að hann hafi ekki greint frá tengslum sínum við aflandsfélög á vegum Landsbankans þegar hann vann þar. Mál hans sem tengist ákæru um brot á þagnarskyldu er nú fyrir dómi.

Jón Ingi segir Gunnar hafa staðið í framlínunni sem forstjóri FME á sínum tíma og fengið á borð sitt mikið af málum sem tengist efnahagshruninu.

Jón Ingi segir félagið hafa haldið um fimmtíu álíka fundi á ári og hafi þeir verið mjög vel sóttir.

„Þetta er gert til þess að hinn almenni borgari geti sest fyrir framan viðkomandi og spurt hann þeirra spurninga sem hann vill,“ segir Jón Ingi og vísar því á bug að það geti orkað tvímælis að fá Gunnar til að halda erindi um það hvað geti talist rétt og rangt þegar mál hans fyrir dómsstólum sé enn í gangi.