Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, vill að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra útskýri ummæli sín á Alþingi í janúar um mál sem snýr að hælisleitandanum Tony Omos. Hún sagði að minnisblað, sem fjölmiðlar hefðu, væri ekki sambærilegt við nein gögn úr ráðuneyti hennar.

Fram kom í fréttum RÚV um málið í dag að Valgerður telji ummælin krefjast frekari skýringar í ljósi nýjustu upplýsinga: „Hún þarf kannski að útskýra eitthvað betur hvað hún átti við með því að engin sambærileg gögn væru þarna. Ég skil það þannig að þessi gögn verið til en hún á kannski við eitthvað annað og þá þarf hún bara að skýra það betur út fyrir okkur öllum, er er það ekki?"

Fram kom á vef innanríkisráðuneytisins í morgun að yfirvöld rannsaki enn lekann á gögnum úr ráðuneytinu og sé málinu ekki lokið. Þá var því vísað á bug að um minnisblað hafi verið að ræða heldur hafi þetta verið samantekt. Hún hafi verið vistuð á opnu drifi tölvukerfis innanríkisráðuneytisins. Tekið er undir gagnrýni þessa efnis að vinnsla og geymsla slíkra gagna eigi ekki að fara fram á opnu drifi og hefur þeirri vinnureglu verið breytt til að tryggja aukið öryggi gagna.