Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að ríkisstjórnin hafi verið áhugalaus um verðlagsmál og það hafi gert kjarasamningana erfiðari. Um helmingur félaga innan ASÍ hafnaði kjarasamningum í atvkæðagreiðslu í liðinni viku. Gylfi vill að hið opinbera semji við launþega áður en félög aunþega á almennum markaði, sem enn eru með lausa samninga, reyni að semja.

Hann segir að ríkisstjórnin hafi verið áhugalaus um breytingar á skattamálum og einnig áhugalaus um verðlagsmál. „Hún þráfaldlega neitaði að afturkalla eigin hækkanir, þótt hún hvetti aðra til að afturkalla sínar hækkanir. Það hafði mjög mikil áhrif,“ segir Gylfi og nefnir gjaldahækkanir í heilbrigðisþjónustu sem dæmi.

Gylfi segir að næsta skref sé að ríkisstjórnin klári samninga við sína starfsmenn. „Það er alveg ljóst að opinberir starfsmenn töldu þetta ekki gefa neinn tón fyrir sína samninga. Eigum við ekki að segja að þeir hafi fengiðsvolítinn meðbyr í því,“ segir Gylfi. Því sé eðlilegt að félög launþega á almennum markaði sitji á hliðarlínunni á meðan opinberir starfsmenn klári sín mál.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .