Ísland ætti að fara í samkeppni við önnur lönd um að bjóða upp á lága skattheimtu, og gerast þannig skattaskjól. Þetta segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands í nýjum pistli á Eyjunni.

„Vandinn er, að auðmenn kjósa stundum að geyma fé sitt annars staðar frekar en á Íslandi. Verkefnið ætti þá að vera að gera það fýsilegt fyrir þá að kjósa að geyma það hér á landi. Það verður best gert með lágum sköttum, opnu hagkerfi og föstum og fyrirsjáanlegum reglum um réttarfar," segir Hannes. „Fjármagn og fyrirtæki eru eftirsóknarverð. Við ættum að skapa þeim skilyrði til að leita hingað til lands."

Hannes segir að ekkert sé óeðlilegt við að peningar flæði frá Íslandi og til Bretlands, Hollands, Lúxemborgar - eða Bresku jómfrúareyja. Þá spyr hann einnig hvers vegna það sé að fé útlendinga leiti ekki hingað til lands.

„Þá þarf Björk Guðmundsdóttir (aðalstuðningsmaður Andra Snæs Magnasonar í forsetakjöri) ekki að stofna aflandsfélag á Bahama-eyjum til að lækka skattgreiðslur sínar, forsetafrúin ekki að flytja lögheimili sitt til Bretlands í sama skyni, Kári Stefánsson ekki að vista eignarhaldsfélag sitt í Delaware og þau hjón, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Pálsdóttir, ekki að hafa eignarhaldsfélag sitt á Bresku jómfrúreyjum. Þá myndi Vilhjálmur Þorsteinsson fjárfestir líka spara sér alls konar útleiki, svo að ekki sé minnst á hin dularfullu félög, sem ávaxta leifarnar af Rússagullinu fyrir Samfylkinguna."