„Einfaldasta ráðið er að ógilda söluna, endurgreiða þeim sem vöknuðu snemma og gefa upp á nýtt. Það er eina leiðin sem skynsemi er í og á möguleika á að sátt skapist um,“ segir Friðrik Friðriksson, forstjóri Skjás eins, um miðasölu á umspilsleik Íslands við Króatíu. Friðrik bloggar um málið á Eyjunni. Eins og kunnugt er seldust miðarnir á leikinn upp rétt eftir að miðasala hófst klukkan fjögur í nótt. Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, hefur séð sig knúinn til að biðjast afsökunar á því hvernig staðið var að sölunni.

„Ekkert af því sem fram hefur komið frá KSÍ um sölu miðanna heldur vatni.  Loksins þegar rofar til með liðið sjálft og minningar um kreditkortið í Sviss farnar að dofna þá klúðra þeir þessu „big time“.  Og maður hugleiðir hvers konar samkoma þetta er“ segir Friðrik. Ummælin um kreditkortið í Sviss vísa til fjögurra ára gamalla frétta af því þegar menn á vegum KSÍ heimsóttu nektardansstað þar í landi. Grunur hefur leikið á að þeir hafi greitt með korti sambandsins á staðnum.

Friðrik bendir á að KSÍ hafi ekkert sagt til um það hvenær sólarhringsins sala miðanna hæfist. Engum heilvita manni gæti hafa dottið í hug að það gerðist klukkan fjögur að morgni. Margir hafi þó vitað þetta og spyr Friðrik hvort KSÍ eða Miði.is hafi lekið upplýsingunum.