Lífeyrissjóðirnir eiga að nýta tækifærið og fjárfesta í fyrirtækjum sem líklegt er að verði skráð á hlutabréfamarkað á næstu misserum, að sögn Helga Magnússonar, stjórnarformanns Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og fyrrverandi formanns Samtaka iðnaðarins. Hann hélt erindi við setningu ársfundar sjóðsins sem haldinn var í gær.

Helgi nefndi nokkur fyrirtæki sem geti talist álitleg. Þar á meðal voru Tryggingamiðstöðin, Eimskip, Advania, olíuverslunin N1, Grandi, VÍS, Vodafone, bankarnir, fasteignafélög, Síminn og fyrirtæki í sjávarútvegi, almennum iðnaði, stóriðju, verslun og ferðaþjónustu. Þá taldi hann koma til skoðunar að ríkissjóður selji hluta af ríkisfyrirtækjum, svo sem Landsvirkjun, Landsnet, Rarik, Fríhöfnina og Flugstöðina í Keflavík.

„Hugsunin er alls ekki sú að þeir eigi að eignast fyrirtækin,“ sagði Helgi en með kaupunum taldi hann að með þeim og öðrum fjárfestingartækifærum geti lífeyrissjóðirnir náð 3,5% ávöxtunarviðmiði sínu.

Lífeyrissjóðaskýrslan of svört

Helgi gerði lífeyrissjóðaskýrsluna sömuleiðis að umfjöllunarefni sínu og gagnrýndi vinnubrögð nefndarinnar sem vann hana.

„Tjón lífeyrissjóðanna af hruninu nam 380 milljörðum króna, sem var um 1/5 af heildareignum þeirra á þeim tíma. Það var mikið högg. Þess vegna er óskiljanlegt að nefndin hafi valið að færa hrunið til 1. janúar árið 2008 og koma með þá niðurstöðu að „tapið“, eins og þeir velja að kalla það, hafi verið 480 milljarðar króna. Þetta skiptir máli vegna þess að það er engin þörf á að sverta dökka mynd með þessu hætti. Þessari nefnd var ekki falið annað en setja staðreyndir fram með réttum hætti. Það fól henni enginn að endurskilgreina hrunsdaginn í byrjun október. Um hann hefur ekki verið deilt til þessa en nefndin færði hann fram til 1. janúar 2008 án skýringa eða rökstuðnings.“