„Ég skora á Magnús Orra Schram að líta upp úr ESB-boxinu,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, óundirbúnum fyrirspurnartíma í dag. Ragnheiður, flokkssystkini hennar á þingi og aðrir þingmenn úr Framsókn skutu hart á Magnús þegar hann sagði að eftir landsfund Sjálfstæðisflokks um helgina að valkostum kjósenda í næstu þingkosningum hafi fækkað.

Magnús sagði niðurstöður landsfundarins hljóta að vera vonbrigði fyrir Evrópusinnaða sjálfstæðismenn og taldi til að þar hafi verið samþykkt að krónan verði framtíðargjaldmiðll þjóðarinnar og lokað á upptöku evru með aðild að Evrópusambandinu.

„Það er ljóst að harðlínuöflin hafa náð völdum. Valkostir kjósenda hafa skýrst. Sjálfstæðisflokkurinn lokar á þann kost sem nútímaatvinnulíf kallar eftir, lokar á heimilin, atvinnulíf og verðmætasköpun. Hann hefur útilokað sig þann kost að vinna með jafnaðarmönnum. Við viljum halda áfram með þetta aðildarferli svo þjóðin vilji ganga inn í Evrópusambandið eða ekki,“ sagði hann.

Samfylkingin komin lengst til vinstri

Ragnheiður vísaði fullyrðingum Magnúsar Orra á bug  og sagði kjósendur, þar á meðal frjálslynda í Sjálfstæðisflokknum, ekki horfa á þetta eina mál, þ.e.aðildarviðræður við Evrópusambandið. Þeir munu m.a. horfa til þess hvað flokkarnir ætla að gera í atvinnumálum. Hún vísaði því jafnframt á bug að Samfylkingin geti kallað sig frjálslynda og spurði hvað ríkisstjórnin hafi verið að gera síðastliðin. Spurningunni svaraði hún sjálf:

„Samfylkingin hefur aldrei verið lengra til vinstri en núna. Hún hefur hækkað skatta og þvælst fyrir  atvinnulífinu.“

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði þvert á fullyrðingar Magnúsar Orra Samfylkinguna hafa einangrað sig með því að einblína á ESB-umræðuna. Á sama tíma sé einkennileg staða komin upp hjá ríkisstjórnarflokkunum.

„Formenn ríkisstjórnarflokka sitja mjög áhrifalitlir hjá því atvinnumálaráðherra hefur nánast sölsað undir sig öll ráðuneyti sem er í boði og Samfylkingin er með formann sem ekki situr í ríkisstjórn.“