*

miðvikudagur, 3. júní 2020
Innlent 6. mars 2019 17:19

Vill að Már segi af sér

Þingmaður Miðflokksins vill að bankastjóri Seðlabankans segi af sér vegna Samherjamálsins.

Ritstjórn
Þorsteinn Sæmundsson er þingmaður Miðflokksins og nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingins.
Haraldur Guðjónsson

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, kallaði eftir afsögn Más Guðmundssonar úr stóli bankastjóra Seðlabankans vegna framgöngu bankans í Samherjamálinu. Þorsteinn er jafnframt nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, en nefndin hlýddi á fundi í morgun á harðorða gagnrýni Umboðsmanns Alþingis á gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands. 

Umboðsmaður fordæmdi þá ákvörðun Seðlabankans að beita stjórnvaldssektum á hendur Samherja árið 2016 þar sem ríkissaksóknari hafði þegar árið 2014 sagt að ekki væru lagaheimildir til staðar fyrir slíkum aðgerðum. Þykir Þorsteini óhæft að seðlabankastjóri og nánustu samstarfsmenn hans sitji áfram í ljósi þessa yfirsjónar. 

„Það er alveg með ólíkindum hvernig seðlabankastjóri og Seðlabankinn hefur farið fram í þessum máli og ég sé ekki annan kost vænlegan fyrir þá sem þarna eiga hlut að máli innan Seðlabankans, en að þeir láti þegar af störfum, það er að segja seðlabankastjóri og hans nánustu samstarfsmenn. Þeim er ekki sætt eftir þessa framgöngu sem að þeir hafa sýnt hér og hafa ekki hlustað á nokkurn mann og ekki orðið við nokkrum ábendingum eða tilmælum,“ sagði þingmaðurinn, að því er mbl.is greinir frá.