*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 3. júní 2019 11:04

Vill að nýtt félag heiti einnig Wow

Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri Wow air, fór um víðan völl í framsögu sinni á Iceland StartUp nú í morgun.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri Wow air, fór um víðan völl í framsögu sinni á Iceland StartUp nú í morgun. Þar fór hann yfir stofnun og endalok flugfélagsins. Meðal annars skaut hann föstum skotum í átt að Icelandair.

„Icelandair sagði ítrekað að verð okkar hefðu verið ósjálfsbær en það er ekki satt. Þau glíma við annað vandamál sem felst í því að vera með ósjálfbæran, of háan kostnað sem er bein afleiðing þess að hafa verið einokunarfyrirtæki í sjö áratugi,“ sagði Skúli.

Í framsögu sinni fór Skúli yfir hugmyndir sínar varðandi Wow 2.0 en það félag yrði fylgið sjálfu sér í að bjóða upp á lág fargjöld og ekki láta glepjast í að bjóða eitthvað auka. Til að slíkt félag myndi gagna þá yrði erfitt að keyra eingöngu á íslensku starfsafli þar sem Ísland væri einfaldlega of dýrt land. Það væri staðreynd sem fólk þyrfti að horfast í augu við.

„Ef við myndum vera trú sannfæringu okkar þá gætum við boðið allt að 40 prósent lægra verð en Icelandair og samt verið í plús. [...] Þú verður að þekkja markaðinn. Það yrði lítill lúxus í vélinni en flestir eru ekki hærri en 190 sentimetrar. Ef maður tæki sex manna fjölskyldu sem gæti sparað þúsund dollara með því að fljúga með slíku félagi þá væri það „no brainer“,“ sagði Skúli.

„Því miður held ég að Icelandair geti ekki farið neðar með verð sín. Þau hafa talað um það að lækka kostnað lengi en það hefur reynst þeim erfitt. Þess í stað hafa þau hækkað verð og tapað viðskiptavinum,“ sagði Skúli.

Spurningunni af hverju ekki verið svarað

Þá vék hann einnig að þeirri staðreynd að banabiti Wow hafi verið breiðþoturnar sem teknar voru inn í flotann. Benti hann á að mikið hefði verið rætt um þær en enn hefði enginn spurt réttu spurningarinnar hvers vegna þær hefðu verið teknar inn.

„Ástæðan er einfaldlega sú að nú bjóða ýmis félög upp á það að fara með mjórri þotum beina leið frá Evrópu til Ameríku. Ef þú spyrð einhvern hvort hann myndi vilja fara þá leið með stoppi eða án þess þá myndi enginn segja að hann vildi stoppið. Þar með væri alfarið farið fram hjá Íslandi og þetta er risastór ógn fyrir íslenska ferðaþjónustu,“ sagði Skúli.

Ástæðan fyrir breytingunni hafi verið sú að með því vonaðist hann til þess að hægt væri að fara lengra til austurs og vestur. Strategískt hafi þetta verið rétt hugsun en breiðþoturnar hafi verið rangt verkfæri fyrir verkið.

„Airbus eru að vinna að mjórri vélum sem komast lengra og eftir á að hyggja hefði ég átt að bíða eftir þeim. En mér fannst ég ekki hafa ár eða daga til að bíða. Það voru mistök,“ sagði Skúli.

Eins og komið hefur fram vinnur Skúli að stofnun nýs félags og sagði hann að hann vildi að það bæri einnig nafn Wow. Það væri synd að nýta ekki þekkinguna sem skapaðist í fyrstu atrennu.

„Fall Wow air hefur verið kallað tilkomumesta klúður sögunnar. En þetta var einnig dýrasta doktorsgráða í rekstri flugfélaga. Það væri synd að sturta því niður. [...] Ef ég fengi tækifæri til þess myndi ég gera þetta allt aftur. Kannski ekki sem forstjóri en ég myndi hjálpa hverjum sem er sem er nægilega klikkaður til að fara aftur af stað,“ sagði Skúli.

Stikkorð: WOW