Bæjarstjórinn í Ölfus, sveitarfélaginu sem inniheldur Þorlákshöfn, Elliði Vignisson, segir að lóð fyrir um 170 fermetra einbýlishús eigi að fást fyrir um þrjár og hálfa milljón í bænum sem sé lægra en í nágrannasveitarfélögunum.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hyggst bærinn auglýsa lóðir á næstu dögum, en hundruðir lóða verði í boði í nýjum íbúðarhúsahverfum sem og í tveimur hverfum undir atvinnuhúsnæði á svæðinu. Auk þess segir Elliði hafi fasteignaskattar nýlega verið lækkaðir.

„Fasteignaskattar eru í sjálfu sér ósanngjörn skattlagning enda kemur hún eftir að greiddir hafa verið skattar af öllu sem lagt var í að byggja húsið. Hjá okkur kostar lóðin sjálf ekkert heldur borgar fólk eingöngu fyrir lóðagerðina. Tilgangurinn með sveitarstjórnum á ekki að vera að standa í lóðabraski, heldur eiga venjulegir skattar og gjöld að geta staðið undir allri þjónustu bæjarins,“ segir Elliði sem einnig horfir til þess að mörg atvinnuhverfi í borginni séu að hverfa undir íbúabyggð.

„Við erum með tvö atvinnuhverfi í uppbyggingu, annars vegar fyrir utan bæinn og hins vegar erum við að skipuleggja stór svæði nær hafnarsvæðinu. Auk þess erum við að vinna hugmyndavinnu að því að stækka höfnina, því við vitum að millilandasiglingar milli Þorlákshafnar og Evrópu eiga bara eftir að vaxa og styrkjast. Það munar allt upp í 12 tímum að sigla fyrir Reykjanesröstina og höfum við verið að fá þreifingar frá fleiri skipafélögum. Fyrirtækin geta þá unnið hráefnið hér og flutt fullunnar vörur fljótt á stærsta markaðinn, höfuðborgarsvæðið.“

Ná Vestmannaeyjum á 8 árum

Nýr bæjarstjóri í Ölfusi viðurkennir að hann sakni Vestmannaeyja þar sem hann var bæjarstjóri í 12 ár og ólst upp. „Það er engin spurning, ég hef orðað það þannig að Eyjamaðurinn getur farið frá eyjunni, en eyjarnar verða alltaf í hjarta hans. Þó að ég hafi hér kynnst mjög mörgu góðu fólki saknar maður auðvitað fólksins sem maður vann með svo ég tali ekki um fjölskyldu og vini,“ segir Elliði sem þó fer reglulega til Eyja.

„En til þess að vera alveg ærlegur þá eru þau verkefni sem ég er í núna hérna í Ölfusi allt önnur og sumpart mikið skemmtilegri heldur en í Vestmannaeyjum þar sem er mikil varnarbarátta. Hér er mikið svigrúm til sóknarbolta og vinnan mín er akkúrat það sem ég þráði, langir vinnudagar við spennandi verkefni í uppbyggingu. Við stefnum að því að á næstu átta árum munum við ná Vestmannaeyjum í íbúafjölda, þó við séum ekki endilega að miða við mína gömlu heimabyggð þar. Höfuðkeppikeflið er ekki að fjölga íbúum sérstaklega heldur veita góða þjónustu með því að nýta á hagkvæmari hátt þá miklu innviði sem hér hafa verið byggðir upp.“

Nánar má lesa um málið í Fasteignamarkaður, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .