Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi utanríkisráðherra, sagði í dag að Gunnar Bragi Sveinsson ætti að bæta fyrir þau mistök sem hann hefði gert með því að leggja fram þingsályktunartillögu um að draga til baka aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Þetta gæti ráðherrann gert með því að draga tillögu sína til baka.

„Ég skora í nafni friðarins á hæstvirtan ráðherra að gera það,“ sagði Össur Skarphéðinsson í umræðum um störf þingsins í dag. Kristján Möller flokksbróðir hans var á sama máli. „Ég vil byrja á því að taka undir hvert einasta orð sem háttvirtur þingmaður Össur Skarphéðinsson sagði hér,“ sagði Kristján þegar hann steig í pontu á eftir Össuri.