Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) og þingmaður Flokks fólksins, segir sérstaklega mikilvægt að þjónustusamningur samtakanna við menningar- og viðskiptaráðuneytið verði framlengdur nú á tímum „hárrar verðbólgu og síendurtekinna vaxtahækkana“.

Samtökin, sem berjast meðal annars fyrir afnámi verðtryggingar, fengu 2 milljónir króna samkvæmt samningi við ráðuneytið á seinni helmingi síðasta árs, m.a. fyrir að veita almenningi „fræðslu um húsnæðisskuldbindingar og réttindi lántakenda“. Alls hafa hagsmunasamtökin fengið 14,1 milljón króna í ríkisstyrk á síðustu tveimur árum.

Í ársbyrjun 2022 voru samtökin með eina launaða stöðu sem skiptist á tvo aðila, lögfræðing og starfsmann skrifstofu. Í nýrri ársskýrslu segja samtökin að í kjölfar þess að ofangreindur samningur var undirritaður réðu þau til sín ráðgjafa í fullt starf.

Fram kemur að nýráðni starfsmaðurinn hafi verið tilnefndur í vinnuhóp Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, um greiningu á gjaldtöku og arðsemi bankanna. Vinnuhópurinn er enn að störfum.

Vinnuhópur um greiningu á gjaldtöku og arðsemi bankanna

Fulltrúi Tilnefning frá:
Daníel Svavarsson, formaður Menningar og viðskiptaráðuneyti
Gylfi Zoega Hagfræðistofnun HÍ
Breki Karlsson Neytendasamtökin
Kristín Helgadóttir Hagsmunasamtök heimilanna
Auður Alfa Ólafsdóttir ASÍ
Yngvi Örn Kristinsson Samtök fjármálafyrirtækja
Tinna Finnbogadóttir Fjármálaráðuneyti

Ásthildur Lóa segir í ársskýrslunni að nýi starfsmaðurinn hafi komið sterkur inn, m.a. í umfjöllun Stundarinnar um verðtryggingu. „Hún var í góðu sambandi við blaðamanninn meðan á vinnslu greinarinnar stóð og var svo á forsíðu blaðsins undir fyrirsögninni „Verðtryggð lán fátækragildra“ (sic) sem vakti töluverða athygli.“

Draumur að ríkið standi undir launakostnaði

Samtökin veita einnig félagsmönnum sínum ráðgjöf um viðskipti sín á fjármálamarkaði. Ásthildur Lóa lýsti í ársskýrslu samtakanna fyrir árið 2021 yfir markmiðum um að efla mikið ráðgjöf og leiðbeiningar sínar.

„Til þess að svo megi verða þurfum við aukinn fjárhagslegan styrk úr opinberum sjóðum og erum bjartsýn á að árangur náist í þeim efnum áður en langt um líður. Draumurinn væri að fá sem svarar launakostnaði tveggja starfsmanna í styrk frá ríkinu en við værum mjög sátt við einn. Þetta er ekki stór krafa þegar litið er á málin í víðara samhengi.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um Hagsmunasamtök heimilanna í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudaginn, 2. mars 2023.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður HH og þingmaður Flokks fólksins, við undirritun þjónustusamnings ráðuneytisins við samtökin um neytendavernd og fjármálafræðslu síðasta sumar.