Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður krefst þess að sérstakur saksóknari svari því fyrir rétti hvernig ákvörðun um málshöfðun í New York gegn sjö einstaklingum tengdum Glitni banka var tekin.

Sigurður greinir frá þessu í pistli á Pressunni . Hann bendir á að Eva Joly hafi sagt frá því opinberlega að málshöfðunin sem lagt var af stað með en vísað frá dómi í New York byggði á samkomulagi embættis sérstaks saksóknara, slitastjórnar Glitnis og fleiri aðila. Þessari fullyrðingu hafi sérstakur saksóknari hafnað.

„Ég hef óskað eftir því að sérstakur saksóknari komi fyrir rétt vegna þessa í máli sem ég rek á hendur slitabúi Glitnis. Sérstakur er að reyna að skorast undan. Kann því að vera nauðsynlegt að fá úr skyldu hans skorið með úrskurði. Það er þá ekki fyrsti úrskurðurinn því á dögunum fékk ég úrskurð um að slitastjórn Glitnis ætti að gefa skýrslu fyrir rétti, hún hafði talið sér það óskylt.,‟ segir Sigurður G. Guðjónsson.