Guðfríður Lilja Grétarsdótir, þingmaður Vinstri-grænna, lagði í dag fram þingsályktunartillögu á Alþingi, um að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því á alþjóðavettvangi að komið verði á svokölluðum Tobin-skatti á fjármagnsflutninga milli landa. Þá vill hún að fram fari markviss athugun á því hvort Íslendingar ættu sjálfir að setja skatt á gjaldeyrisviðskipti af stærðargráðu sem einhverju nemi, óháð því sem gerist erlendis. Markmiðið eigi að vera að verja samfélagið fyrir óábyrgri spákaupmennsku með gjaldmiðil þjóðarinnar.

„Hrein spákaupmennska“

Í greinargerð segir að markmiðið með Tobin skatti væri að draga úr gengissveiflum einstakra gjaldmiðla og einnig til að verja þá fyrir árásum spákaupmanna. Þá væri hægt að nota tekjur af skattinum til að fjármagna aðkallandi alþjóðaverkefni. Í greinargerð tillögunnar segir jafnframt að á hverjum degi fari andvirði á um annað hundrað þúsunda milljarða króna milli landi og að þar af séu yfir 80% „hrein spákaupmennska“. Íslendingar hafi fengið að kynnast afleiðingum af spákaupmennsku af þessu tagi. „Átti spákaupmennska með gjaldeyri án ef þátt í fjármálahruninu undir lok fyrsta áratugar nýrrar aldar.”