„Ég held að það sé áhugi og eftirspurn eftir því að þetta verði uppi á borðum og opið. Ég held að þetta ættu að vera eins og aðrar sambærilegar upplýsingar,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Hann vill að slitastjórnir föllnu bankanna birti upplýsingar um launakjör sín. Málið kom m.a. upp á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun þar sem samskipti ráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins (FME) voru rædd. FME fékk það hlutverk árið 2010 að hafa eftirlit með gjaldþrota búum í skiptum, s.s. hvort þar eru stundaðir heilbrigðir viðskiptahættir og reglum fylgt.

Launaumræðan hefur verið talsvert í umræðunni en Guðlaugur Þ. Þórðarson , þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í nóvember í fyrra fólk í slitastjórnum með 35 þúsund krónur í tímakaup. Steingrímur svaraði því til að sér þætti þau úr takti við íslenskan veruleika.

Vill svipta hulunni af launakjörum

Steingrímur segir í samtali við vb.is að vegna þessa hafi ráðuneyti hans kannað hjá FME hvernig eftirlitinu sé háttað. „En auðvitað er FME sjálfstæð stofnun og við getum ekkert blandað okkur í það, s.s. hvaða upplýsingar þeir hafa og hvað þeir geta gert opinbert,“ segir Steingrímur.

Hann leggur engu að síður áherslu á mikilvægi gagnsæis í rekstri slitastjórnanna.

„Við höfum lagt áherslu á það að þetta verði eins gagnsætt og mögulegt er og eins miklar upplýsingar uppi á borðum og kostur er. Það er verið að hvetja til þess að allar þær upplýsingar sem hægt er að birta verði birtar,“ segir hann en bendir á móti á að þegar upp er staðið séu það slitastjórnirnar sjálfar sem þurfi að svara fyrir það hvaða upplýsingar þær birta um sín störf og hverjum.

„Slitastjórnirnar eru dómsskipaðar og starfa innan ákveðins lagaramma en þurfa að gæta hagsmuna þeirra sem eiga kröfur í þrotabúin. Um þær gilda ákveðnar reglur. En ég tel að það verði öllum fyrir bestu að leggja fram sem mestar upplýsingar svo hver og einn geti lagt mat á það hvort þetta er hóflegt,“ segir Steingrímur.