Ragnar Þór Ingólfsson, stjórnarmaður í VR, ætlar að leggja það til á stjórnarfundi í kvöld að stjórnin hvetji félagsmenn sína til að hafna nýgerðum kjarasamningi. Þetta segir hann á fésbókarsíðu sinni. Þar leggur hann út af viðtali Sigmars Guðmundssonar við verkalýðsforingjana Gylfa Arnbjörnsson og Vilhjálm Birgisson í Kastljósinu í gær.

Ragnar segir að Gylfi Arnbjörnson hafi sungið sitt síðasta í eyru launafólks með framkomu sinni síðustu vikur sem hann svo „toppaði með eftirminnilegum hætti í gærkvöldi.“

Ragnar segir aftur á móti að ástæðan fyrir því að hann mun leggja tillöguna fram í kvöld sé aðallega sú að allar forsendur fyrir aðfararsamningnum séu nú þegar brostnar eða við það að bresta.

„Samanber framkomu stórfyrirtækja með kaupaukakerfi og ofurlaunum lykilstjórnenda með stjórnir lífeyrissjóða á bakvið sig, hækkanir byrgja sem nú liggja fyrir, hækkanir á rafmagni, sykurskatti og öðrum neysluskatti. Það stendur ekki steinn yfir steini og blekið ekki þornað,“ segir hann.

Ragnar Þór segist hafa verið að fara yfir verðskrár erlendra byrgja og séu hækkanir á erlendum innkaupsverðum fyrir þetta ár frá bilinu 6-10% og hærra. Framkvæmdastjóri Hagkaupa hafi þegar bent á hækkanir á nokkrum vöruflokkum.

„Þetta er dapur vitnisburður um enn eitt bullið sem launafólk er alið á þegar kemur að loforðum ASÍ/SA um að allir taki nú þátt í að verja stöðugleika og kaupmátt. Algjörlega innihaldslaus loforð eins og venjulega. Við getum ennþá breytt.Og hafnað þessum samningum í kosningu aðildarfélaganna. Tími Gylfa og annara lýðskrumara á hans vegum hlýtur að vera liðinn,“ segir Ragnar Þór.

Í Fréttablaðinu í dag er auglýst að Ólafía B. Rafnsdóttir mun fara ferð um landið á næstunni og kynna félagsmönnum VR samningana.