Hannes G. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í fréttabréfi samtakanna þar sem fjallað er um verkefni nýrrar ríkisstjórnar að stjónrvöld verði að taka upp viðræður við Seðlabankann og fá hann til að lækka vexti. Hægt er að lesa pistil Hannesar hér .

Hann segir gengi krónunnar all of hátt og bendir á að „fer að óbreyttu hækkandi á næstu mánuðum og misserum þar til komið er í óefni, tekjur af ferðamönnum taka að minnka og gengið að falla. Afgangur af þjónustuviðskiptum hverfur, halli á vöruviðskiptum verður mikill og sívaxandi og mikill viðskiptahalli mun einnig grafa undan krónunni. Koma verður í veg fyrir þessa þróun og mikilvægur liður í því er að Seðlabankinn lækki vexti verulega.“

Að mati Hannesar verði ný ríkisstjórn að taka mið af þenslunni í efnahagslífinu. Hann bendir á að hagvöxtur sér mikill, atvinnuleysi í lágmarki og hætta er á að efnahagslegur stöðugleiki raskist.

„Í lögum um opinber fjármál er kveðið skýrt á um að stefna í opinberum fjármálum skuli stuðla að jafnvægi í efnahagsmálum. Undan þeirri skyldu getur ný ríkisstjórn ekki vikist. Því verða fjármál hins opinbera að hamla á móti efnahagsþenslunni sem nú stendur yfir,“ segir einnig í grein Hannesar.