Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, hefur talað fyrir því að setja eigi á stofn millidómstig sem verði málskotsdómstig í öllum málum sem byrja á fyrsta dómstigi. „Svo verði hægt að áfrýja til Hæstaréttar niðurstöðum þessa dómstigs með leyfi Hæstaréttar. Hæstaréttardómurum yrði þá fækkað í fimm og þeir myndu allir dæma í öllum málum. Hugsanlega væri hægt í stærri málum að sækja um heimild til Hæstaréttar að byrja málið fyrir millidómstiginu. Hin leiðin, sem sums staðar erlendis er farin, er að öll mál byrji í héraði en með leyfi Hæstaréttar væri hægt að áfrýja beint til hans. Það sem ráða á því hvort Hæstiréttur tekur mál til skoðunar myndi þá ráðast af hagsmunum í viðkomandi máli eða fordæmisgildi þess.“

Í viðtali við Viðskiptablaðið nefnir Jón Steinar að Antonin Scalia, hæstaréttardómari í Bandaríkjunum, hafi sagt að fyrir Hæstarétti séu það ekki málsaðilarnir sem skipta máli, heldur sakarefnið sjálft og þýðing úrlausnar þess fyrir allt réttarsamfélagið sem í hlut á. „Ég held að þessi hugsun og nálgun sé mjög mikilvæg. Allir eiga að búa við sama réttinn og þess vegna er mikilvægt að dómurinn sé einn. Ég geri það að minni tillögu að núverandi Hæstiréttur verði gerður að þessu millidómstigi og að skipaður yrði nýr Hæstiréttur. Það þýðir að hægt yrði að gera þetta strax. Það má víkja manni úr starfi Hæstaréttardómara ef það er gert við breytingu á réttarskipan í landinu. Þetta mætti gera með einfaldri lagasetningu.“

Lesa má viðtalið í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.