Tanya Zharov, skattalögfræðingur, aðstoðarforstjóri og regluvörður Íslenskrar erfðagreiningar, og stjórnarformaður Íslandssjóða og Carbon Recycling segir mikilvægt að framlengja eða taka út tímamörk á því að fyrirtæki geti nýtt yfirfæranlegt tap.

„Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir fyrirtæki sem byggja á hugviti sem tekur langan tíma að skapa,“ segir Tanya í Morgunblaðinu, þegar hún er spurð hverju hún myndi helst vilja breyta í lagaumhverfi hér á landi. „Auk þess verða bráðum liðin tíu ár frá bankahruninu, þegar flest íslensk fyrirtæki gengu í gegnum miklar fjárhagslegar hremmingar.

Það tap í rekstri sem þá myndaðist fer bráðum að fyrnast vegna tíu ára reglunnar og því er sérstaklega mikilvægt að framlengja tímann eða taka tímamörkin alveg út.“ Segir Tanya í raun vilja taka í gegn lagaumhverfið í kringum stofnun fyrirtækja sem byggja á hugmyndum.