Haukur Þór Hauksson viðskiptafræðingur hefur verið ráðinn aðstoðarframkvæmdastjóri Landsambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ). Aðspurður segir Haukur Þór starfið leggjast mjög vel í sig.

„Mér hefur lengi þótt sjávarútvegur heillandi og langað til að kunna betri skil á atvinnugreininni. Ég hef stundum gantast með að það sé jafn nauðsynlegt fyrir Íslending að hafa lágmarksþekkingu á sjávarútvegi og fyrir Frakka að hafa skilning á rauðvínsgerð,“ segir Haukur Þór. Hann segir sjávarútveg vera það sem við Íslendingar byggjum stóran hluta velferðar okkar á, enda höfum við gert þetta betur en flestir aðrir. „Þetta er arðbær grein, sem byggir á sjálfbærni og stendur undir stórum hluta nýsköpunar og tækniþróunar í landinu þannig að mér þykir þetta einkar spennandi vettvangur sem við getum verið stolt af,“ segir Haukur Þór.

Hann segir LÍÚ ef til vill ekki hafa þróast jafn hratt og greinin sjálf á undanförnum árum en að hann þekki og treysti Kolbeini Árnasyni, sem nýlega tók við stöðu framkvæmdastjóra samtakanna, fullkomlega til að gera samtökin betur í stakk búin til að takast á við breytta tíma.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .