*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 15. janúar 2017 11:17

Vill afnema höft á þessu ári

Tækifærið til að breyta vinnumarkaðsmódelinu er núna að sögn framkvæmdastjóra SA .

Trausti Hafliðason
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Haraldur Guðjónsson

Eitt af stóru málunum sem snertir atvinnulífið eru kjarasamningar en samningar á almennum markaði munu losna í lok næsta árs. Í stefnuyfirlýsingunni kemur fram að ríkisstjórnin muni styðja sátt á vinnumarkaði. Það hyggst hún gera með því að styðja frekari umbætur á íslenska vinnumarkaðslíkaninu að norrænni fyrirmynd, sem drög hafa verið lögð að í svonefndu SALEK-samkomulagi. Ennfremur vill hún styðja jöfnun kjara milli opinbera og almenna markaðarins.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að ný ríkisstjórn verði væntanlega frjálslynd , sem sé gott, og hann óski henni velfarnaðar. Hún standi aftur á móti andspænis mjög stórum og vandasömum málum.

„Ég vil meina að næsta stóra málið fyrir samfélagið í heild sinni, sé að hér verði samstaða um nýtt vinnumarkaðslíkan," segir Halldór og fagnar því að kjaramálin séu inni í stefnuyfirlýsingunni. „Nú, þegar búið er að rétta þjóðarskútuna af, eru þau næsta mál á dagskrá.

Tækifærið til að breyta  vinnumarkaðsmódelinu er núna," segir Halldór. "Það er búið að leggja grunnin að nýju vinnumarkaðslíkani en þeirri vinnu er engan veginn lokið. Lykilatriðið, sem þarf að ná fram, er sameiginlegur skilningur aðila á vinnumarkaði á mikilvægi þess að launaþróun sé sjálfbær og það má segja að það glitti þetta atriði í stjórnarsáttmálanum. Það verður að ríkja skilningur á því að hóflegar launahækkanir eru almannagæði því við erum öll betur sett ef okkur tekst að stemma stigu við þessu svokallaða höfrungahlaupi, sem hefur verið í gangi í kjaramálum."

Vondur skattur

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að hyggja þurfi sérstaklega að skattaumhverfi einyrkja, sem og lítilla og meðalstórra fyrirtækja, með einföldun og lækkun tryggingagjalds í huga.
„Þrátt fyrir að ekki sé talað um hversu mikið eigi að lækka gjaldið eða hvenær þá er mjög jákvætt að sjá tryggingagjaldið nefnt berum orðum í stefnuyfirlýsingunni," segir Halldór. „Tekjur ríkissjóðs af tryggingagjaldi nema 85 til 90 milljörðum króna á ári. Þetta aftur á móti mjög vondur skattur, sem kemur meðal annars í veg fyrir sköpun nýrra starfa. Þó verið sé að nýta tryggingjaldið meðal annars í atvinnuleysistryggingasjóð þá er atvinnuleysi nú í sögulegu lágmarki og væri kannski skynsamlegt að taka upp sveiflujafnandi tryggingjald. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er þetta stórmál fyrir atvinnurekendur og það verður fróðlegt að sjá frekar útfærslu ríkisstjórnarinnar."

Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins hafa undanfarin ár talað mjög fyrir afléttingu gjaldeyrishafta. Í stefnuyfirlýsingu er komið inn á gengis- og peningamál og áætlun um afnám fjármagnshafta sögð eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar.

„Skilaboðin héðan hafa verið skýr," segir Halldór um afnám hafta. „Okkar skoðun er sú að afnema eigi höftin á þessu ári. Ef ekki núna, hvenær þá? Það er engin ástæða til að vera með höft. Þau eru beinlínis óskynsamleg eins og staðan er í dag."
Halldór segist sakna þess að ekkert sé talað um skattalækkanir í stjórnarsáttmálanum því hér séu skattar háir. "Heildarskatttekjur ríkissjóðs Íslands eru þær þriðju hæstu innan OECD og því hefði maður haldið að það væri svigrúm til lækkana."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.