Ari Helgason var nýlega skipaður einn af stjórnarmönnum Kríu, nýs opinbers fjárfestingasjóðs sem ætlað er að styðja við sprotaumhverfið hér á landi. Hann segir frábært að sjá svona verulegt fjármagn sett í málaflokkinn, sem hefur verið í miklum uppgangi síðustu ár.

„Þetta náttúrulega kemur inn í það og mun hjálpa því enn meira að vaxa,“ segir hann og bendir á að sambærilegir sjóðir séu reknir víða erlendis. Sjóðurinn verður svokallaður sjóðasjóður, sem fjárfesta mun í öðrum fjárfestingasjóðum, fremur en í einstaka fyrirtækjum með beinum hætti.

Sjá einnig: Helgasynir stofna sprotasjóð

Hann mun þó ekki aðeins hjálpa til með fjárframlögum að sögn Ara, heldur einnig með því að ýta undir og mynda ný tengsl íslensks sprotafjárfestingaumhverfis við umheiminn, og þannig ýta undir að vöxtur í sprotafjárfestingum hér á landi verði áþekkur því sem gengur og gerist erlendis.

Góð leið sem hefur virkað vel annarsstaðar
„Ég held að þetta sé mjög góð leið af því að þetta styður vöxt sprotafjárfestingafélaga á Íslandi, án þess að ríkið sé að handvelja hvaða fyrirtæki fái peninginn. Ég held að það sé miklu sterkara að gera þetta í gegnum sérfræðinga og hjálpa þeim sem eru að byggja upp sjóði og kunna að velja fyrirtæki. Í ofanálag er komin nokkur reynsla á þetta alþjóðlega og við höfum séð þetta módel virka mjög vel annars staðar.“

Ein helsta áhersla í starfsemi Kríu verður að styðja við fjárfestingasjóði sem „hafa þessa alþjóðlegu sýn“ og vinna samkvæmt viðurkenndum alþjóðlegum aðferðum um hvernig sprotastarfsemi er fjármögnuð, að sögn Ara. „Ég myndi rosalega gjarnan vilja sjá að sjóðirnir fengju líka fjárfestingu erlendis frá, og að umhverfið verði almennt alþjóðlegra, þó það verði ekki skilyrði fyrir fjárfestingu frá okkur. Það hefur ekki verið mikið um það.“

Í því skyni segir Ari Kríu munu geta hjálpað með tengsl. „Fyrst við erum fjárfestar í þessum sjóðum þá getum við talað við erlenda fjárfesta og reynt að draga athygli að því sem er í gangi á Íslandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .