Þeim fjölgar sem vilja skoða mögulega stofnun nýs banka á Íslandi. Már Mixa hagfræðingur segist telja að stíga eigi skrefið til fulls og aðskilja lán til stórra fyrirtækja frá almennum bankarekstri.

„Í fyrsta lagi hefur það loðað við fjármálaþjónustu að mynda fórnarkostnað til að þjónusta stór fyrirtæki í þeirri von að slíkur kostnaður ávinnist til baka með öðrum leiðum. Slíkt gerist sjaldan. Þýskir bankar könnuðu í upphafi þessa áratugar hvar hagnaður myndaðist hjá þeim. Í ljós kom að um helmingur þess fjármagns í útlánaþjónustu þeirra skilaði neikvæðri afkomu. Því er nauðsynlegt að aðgreina þjónustu til fyrirtækja og einstaklinga til að koma í veg fyrir slík vinnubrögð," sagði Már.

Hann benti ennfremur á að slík uppsetning skapi skilvirkari markmið, aukna þekkingu og hvatningu sem snýst meira út að það að stýra lána- og eignasafni vel og minna í kringum að vinna sér bitlinga innan skipurits fjármálastofnunnar.

„,Með því að hólfa teymi niður í atvinnugreinar myndast meiri þekking á þeim sviðum sem gerir starfsmenn innan slíkra sviða betri í að fylgjast með lánveitingum og fjárfestingum í þeirra umsjá," sagði Már.