Ragnheiður Elín Árnadóttir viðskiptaráðherra lýsti því yfir fyrir rúmum mánuði að kennitöluflakk og slæm skil á ársreikningum væru meinsemd á Íslandi sem þyrfti að finna lausn á. „Þessu hefur verið lýst sem meinsemd áður en aldrei hefur neitt verið gert,“ segir Atli Már Ingólfsson, lögmaður og einn eigenda lögfræðistofunnar Land lögmenn. „Fyrst þurfa menn að átta sig á því hvers vegna þetta er meinsemd. Þetta er meinsemd vegna þess að í hvert sinn sem félag fer í þrot verður tjón. Kröfuhafar tapa og það verður kerfisvilla sem leiðir til tjóns fyrir alla því það eru að tapast peningar út úr kerfinu. Þetta getur haft áhrif á vöruverð og ýmsan kostnað til hækkunar. Þess vegna er mikilvægt að uppræta þetta.“

Að sögn Atla Más er eðlilegt að fyrirtæki fari stundum í þrot og stjórnendum mistakist. „Það þarf samt að finna eitthvað jafnvægi frá kæruleysinu sem er í dag. Eins og staðan er finnst mörgum ekkert tiltökumál að fara í þrot með fyriræki því það hefur oftast litlar afleiðingar. Það þarf að finna jafnvægi á milli þess að það hafi nánast engar afleiðingar að fara á hausinn og að það sé ekki hamlandi að mönnum megi ekki mistakast því það er alltaf áhætta að stofna fyrirtæki.“

Atli Már segir að hluti af lausninni sé herða skil á ársreikningum og hækka lágmarkshlutafé við stofnun fyrirtækja. Í dag er hámarkssekt vegna vanrækslu á ársreikningaskilum 500 þúsund krónur og lágmarkshlutafé við stofnun einkahlutafélags er einnig 500 þúsund. Atli Már segir þetta lágar fjárhæðir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .